Árangursrík þjónustusamskipti með líkamstjáningu
Líkamstjáning er okkar leið til að eiga samskipti við umheiminn án orða t.d. með svipbrigðum, líkamsstöðu eða hreyfingum. Orðlaus samskipti eru stærsti hluti samskipta okkar við viðskiptavini og hefur mikil áhrif á upplifun þeirra. Sem dæmi tjáum við tilfinningar okkar með orðum í aðeins 7% tilfella, í 38% tilfella gerum við því að beita röddinni – breyta hraða, blæ eða tón. En í 55% tilfella er það líkamstjáningin sem segir umheiminum hvernig okkur líður.
Líkamstjáning getur róað, byggt traust og aukið tengsl milli einstaklinga. En hún getur líka ruglað aðra í rýminu, myndað spennu eða jafnvel skapað óþægilegt umhverfi. Líkamstjáning getur breytt niðurstöðum samtals, ef hún á ekki samleið við orðin aukast líkurnar á breyttri túlkun viðmælandans og misskilning. Orðlaus samskipti geta þannig breytt merkingu orða okkar, undirstrikað meiningu okkar, stangast á við það sem við segjum og stutt við það sem viðmælandinn hefur að segja.
Af þessum sökum er mikilvægt fyrir okkur að vera meðvituð um það hvernig við tjáum okkur með líkamanum, þó meginþorri líkamstjáningar eigi sér stað ómeðvitað. Hér munum við fara yfir nokkur dæmi um samskipti með líkamstjáningu.
Svipbrigði
Það eru sex megin svipbrigði sem maðurinn sýnir: gleði, reiði, ótti, leiði, viðbjóður og undrun. Svipbrigði eru í aðalhlutverki í samskiptum þar sem þau hjálpa okkur að lesa úr aðstæðum og túlka afstöðu viðmælandans.
Líkamsstaða
Það hvernig þú hreyfir þig og beitir líkamanum – hvort þú situr, stendur, færir þyngdina milli fóta, hallar þér fram, krossleggur hendur, tjáir þig með opna lófa eða kreppta hnefa segir viðmælandanum mikið um það hverjar tilætlanir þínar eru með samtalinu. Þegar verið er að eiga við erfiðan viðskiptavin sem dæmi er mikilvægt að sýna afslappaða líkamsstöðu með því að hafa hendur niður með síðum, opna lófa og halla sér aðeins að viðskiptavininum. Það að krossleggja hendur eða gera sig breiðan getur hins vegar haft þveröfug áhrif.
Bendingar
Bendingar eru hreyfingar á borð við það að veifa, benda eða nota hendurnar á meðan þú talar. Við erum gjörn á að nota hendurnar mikið þegar tilfinningar um málefnið eru sterkar. Þær geta hjálpað okkur að tjá flóknar hugsanir betur og á skýrari máta. Þó þarf að gæta að því að stilla bendingarnar af þegar miklar tilfinningar eru í spilinu í samskiptum við samstarfsfólk, viðskiptavini eða samningsaðila. Gæta þarf að þær séu aðeins nýttar til skýringar frekar en að tjá heift.
Augnsamband
Við lesum ýmislegt úr augunum í samskiptum s.s. hreinskilni, fjandskap, aðlöðun og ástúð. Augnsamband spilar nauðsynlegt hlut verk í því að halda samtali gangandi, það tjáir samhygð, áhyggjur og áhuga. Í erfiðum samskiptum tjáir eðlilegt augnsamband vinsemd og opið hugarfar.
Birt í fréttapósti hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt 24.1.22 í tengslum við vefnámskeið sem Gerum betur er með fyrir Starfsmennt.