Virka Íslendingar óheflaðir?
Án þess endilega að ætla sér að vera dónalegir getur samskiptamáti Íslendinga virkað hranalegur og grófur á erlent starfsfólk og ferðamenn.
Íslendingum hættir til að ávarpa erlenda aðila með skipunartóni
Erlendum aðilum getur þótt það stuðandi að Íslendingum er ekki tamt að nota ýmis kurteisisorð. Það getur því hljómað eins og hreinar skipanir þegar við segjum: Komið hingað, farið þangað, setjist, frekar en að biðja ögn kurteislega. Margar aðrar þjóðir eru vanari því að hlutirnir séu orðaðir öðruvísi og gott er að nota: Mætti bjóða þér, viltu gjöra svo vel, og vinsamlegast í samskiptum við erlenda aðila. Aðrar þjóðir tjá sig almennt ekki með jafn beinskeyttum hætti og við. Danir frændur okkar, sem dæmi, myndu gjarnan segja: Må jeg bede om í bakaríi þegar Íslendingar segja: Ég ætla að fá! Ég hef sjálf horft á Íslendinga sem starfa t.d. í banka eða á stofnunum beinlínis skipa erlendu fólki fyrir, “sign here”, “go there” o.s.frv. Það er sorglegt þegar maður upplifir viðskiptavinina í slíkum tilvikum nánast skreppa saman á staðnum yfir þessum skipunum.
Ýmsar kenningar hafa verið settar fram til að reyna að skýra þennan menningarmun. Stærð og aldur samfélaga kunni að hafa eitthvað að segja með það að ólíkur talsmáti þróast hjá þjóðum. Ein skýringin gæti verið sú að við erum sjómannaþjóð; ef að eitthvað þarf að gera um borð þá þarf að gera það strax, og segja hlutina skýrt frekar en að tala undir rós. Landnemaþjóðir, eins og t.d. Bandaríkjamenn, hafi orð á sér fyrir að segja hlutina skýrt en samt á mun kurteisari máta en Íslendingar. Þjóðir með margra alda- og árþúsundalanga sögu, eins og Kínverjar, Japanar og Indverjar, hafa síðan oft þróað með sér flóknara tungumál þar sem hlutirnir eru ekki endilega sagðir beint út. Sumar þjóðir frá Asíu eiga það til að segja “yes” jafnvel þótt þau meini í raun “no”. Þeim getur þótt það of kuldalegt eða stuðandi að segja beint nei. Lesa þarf því á milli línanna til að átta sig á hvort viðkomandi málefni gangi eða ekki.
Vafasamar handabendingar
Þeir sem þjónusti erlent starfsfólk og ferðamenn þurfi að vera meðvitaðir um alls kyns látbragð og handabendingar hafi ekki sömu merkingu í samskiptum ólíkra þjóða. Eitt þekktasta dæmið er að í sumum menningarheimum þykir mjög dónalegt að benda með puttanum, og í staðinn ætti að benda með flötum lófa, þegar verið er að vísa til leiðar við goshver eða sýna matseðil á veitingastað. Fólk frá Póllandi sem hefur setið námskeið hjá mér nefnir oft að þeim finnist óþægilegt þegar bent er á þau með puttanum þegar talað er við þau. Einu sinni var kona á námskeiði hjá mér frá Suðaustur Asíu og sagði hún okkur frá því að hún hafi farið að gráta þegar yfirmaður hennar benti henni á að koma með sér með því að kreppa þrjá fingur og snúa vísifingri nokkrum sinnum að sér. Svona var “talað” við hunda í hennar landi. Að reka upp þumalinn, eða mynda hring með þumli og vísifingri til marks um velþóknun, getur þýtt eitthvað allt annað og verra í öðrum löndum. Það getur verið svolítið kostulegt að sjá t.d. flugþjóna nota þannig handabendingar fyrir framan fulla vél af allra þjóða farþegum. Svo er ágætt að muna, sérstaklega í kringum fólk frá Suðaustur Asíu , að það að hneigja höfuðið örlítið mun falla í kramið, sem og að nota báðar hendur til að rétta og taka við peningum, gögnum, varningi og nafnspjöldum.
Samskiptamáti
Samskiptamáti Íslendinga getur líka valdið erlendu starfsfólki ama. Það er skipunartónninn sem fólk á ekki að venjast, hvort heldur er frá yfirmönnum, jafningjum eða undirmönnum á vinnustað. Erlenda starfsfólkið skilur þetta mjög fljótt þegar þetta er útskýrt fyrir þeim, og upplifa sumir mikinn létti að komast að því að Íslendingar einfaldlega tala svona og eru ekki að meina neitt slæmt með því.
Greinin byggir á viðtali Ásgeir Ingvarssonar við Margréti sem var birt í Morgunblaðinu, 29.7.2019